Vá! Það er eiginlega ótrúlegt að segja það upphátt en nú eru 12 mánuðir síðan við – Kristín og Sandra – tókum við rekstri Skynörvunar! Fyrir ári síðan stigum við inn í þetta ævintýri með fullt af hugmyndum, spenning í maganum (og já, smá stress líka 😉). Síðan þá höfum við lært ótrúlega margt, kynnst dásamlegu fólki og séð verslunina okkar vaxa og dafna.
Þetta ár hefur verið algjör rússíbani – en sá allra skemmtilegasti! Við höfum fengið að fylgjast með ykkur kæru viðskiptavinir, finna ykkar uppáhaldsvörur, prófa nýjar lausnir og deila með okkur sögum af því hvernig vörurnar okkar hafa haft áhrif á ykkar daglega líf. Það er engin spurning að án ykkar væri Skynörvun ekki það sem hún er í dag. ❤️
Við höfum líka lært svo margt! Að reka verslun er bæði krefjandi og ótrúlega gefandi. Að finna réttu vörurnar, þróa úrvalið okkar og vinna með nýjum birgjum hefur verið mikil og skemmtileg vinna. Og já, við höfum líka fengið nokkrar góðar lexíur – eins og að lagerinn gengur ekki sjálfur frá sér og að það er betra að panta nýjar vörur áður en þær klárast. 😅
En það sem stendur upp úr er þakklætið. Þakklæti fyrir viðskiptavini okkar sem treysta á okkur. Þakklæti fyrir fólkið okkar sem hefur stutt við bakið á okkur þegar verkefnin hafa verið mörg. Og þakklæti fyrir það að geta vakið athygli á skynörvunarlausnum og hjálpað fólki að finna vörur sem bæta lífsgæði þeirra.
Framtíðin er björt, við höldum áfram að vaxa, bæta við nýjum vörum og tryggja að Skynörvun sé staður sem fólk getur alltaf treyst á fyrir gæðavörur og góða þjónustu.
Takk fyrir þetta ótrúlega fyrsta ár – við erum spenntar fyrir því sem er framundan! 🎊
Kristín & Sandra 💛